149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fordæmið hefur verið sett að ákveðnu marki. Í fylgiskjali IV, g-lið 1. töluliðar XII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið segir, eftir að Ísland hafði samið sérstaklega um náttúruauðlind sem Ísland var ekki tilbúið að sleppa höndum af:

„Þrátt fyrir 40. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram þeim höftum sem eru í gildi við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.“

Og í 2. mgr. segir, með leyfi forseta:

„Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki“ — skuldbinda fyrirtæki, hér er nú aldeilis inngrip — „sem hafa að hluta eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.“

Þarna er nú aldeilis inngrip af Íslands hálfu gagnvart samningnum. En þetta var samþykkt af því að hin lögformlega leið var farin og ákvæði samningsins virt.

Varðandi það að hafna innleiðingunni og senda aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar er dr. prófessor Carl Baudenbacher skýr í álitsgerð sinni. Það má vera að skilningur þessara tveggja manna, Carls og Eyjólfs, á orðalaginu „að hafna“ annars vegar og „að vísa til“ hins vegar sé ekki sá sami eða að ég sé ekki að þýða rétt upp úr álitsgerð Carls Baudenbachers þar sem stjórnvöld á Íslandi hafa ekki látið svo lítið að þýða þau (Forseti hringir.) skjöl sem fyrir liggja í málinu, þrátt fyrir að þingmálið sé íslenska.

En nú er tíminn hlaupinn frá mér og bjallan farin að glymja. Ég verð að koma inn á það í seinni ræðu hér hvað ég hef að segja um álit Carls Baudenbachers.