149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Er hv. þingmaður sammála mér um að lýsing hans hér áðan á framgöngu þingmanna hins flokksins sé lýsandi fyrir vanda stjórnmála samtímans, þessara ímyndarstjórnmála sem stundum eru kölluð svo, sem ganga einmitt út á það að láta kerfið um að stjórna en vera þess í stað í einhverju ati, jafnvel persónulega ati oft og tíðum, halda einhvers konar ræður um allt mögulegt annað en efni máls. Við höfum hins vegar verið að ræða efni þessa máls og leitast við að fá svör frá stuðningsmönnum hins flokksins við hinum ýmsu spurningum. Mér finnst einmitt birtast núna með mjög skýrum hætti eðli þessara nýju stjórnmála þar sem stjórnmálamenn annaðhvort þora ekki að stjórna eða hafa ekki fyrir því, setja sig ekki inn í málin heldur láta mata sig, láta mata sig og láta kerfið stjórna en nýta hvert tækifæri til að æða í fjölmiðla og vega að öðrum stjórnmálamönnum eða ræða eitthvað allt annað en efni máls. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér.

Í þessu samhengi er mjög áhugavert að sjá að við höfum fengið mjög skýrar aðvaranir frá eldri og reyndari stjórnmálamönnum úr öllum þessum flokkum frá vinstri til hægri. Það eru kannski menn sem voru í pólitík á þeim tíma þegar pólitík snerist meira um stjórnmál en sýndarmennsku eins og þá sem þeir sem nú ætlast til að við samþykkjum þennan þriðja orkupakka bjóða upp á.