149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem skiptir máli í þessu er að við höldum því á lofti að við erum í þessari umræðu vegna þess að við höfum verulegar áhyggjur af því að þetta komi til með að hafa slæm áhrif fyrir almenning í landinu.

Það er annað sem mig langaði að koma inn á í þessu sambandi. Nú hafa stjórnmálaflokkar sem eru að keyra þetta mál í gegn fengið allt önnur skilaboð frá sinni grasrót. Fólkið sem vinnur fyrir flokka eins og t.d. bara Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, vinnur fyrir þá í sjálfboðavinnu og hefur gert árum saman, hefur áhuga á stjórnmálum, er í þessum flokkum vegna þess að það vill koma á framfæri þjóðfélagsmálum sem eru brýn, vill vera þátttakendur í þeim og vill móta stefnu þessara flokka, gerir það á þingum víða um land — það hefur tekið afgerandi afstöðu gegn þessum orkupakka, gegn innleiðingu þessarar tilskipunar. Engu að síður halda forystumenn þessara flokka, alþingismenn, sem eru fulltrúar grasrótarinnar og síðan náttúrlega fulltrúar fyrir sinn flokk hér á Alþingi, fram allt annarri stefnu en grasrótin, fólkið sem hefur hjálpað þessum mönnum og konum að komast á þing, unnið fyrir þau í sjálfboðavinnu. Þeir halda fram allt öðrum málflutningi en þetta fólk hefur lagt upp með í sinni vinnu innan grasrótarinnar. (Forseti hringir.)

Hvaða afleiðingar telur hv þingmaður að þetta muni hafa fyrir þessa flokka og þingmenn þeirra?