149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir afbragðsgóða ræðu og hugleiðingar. Hann kom inn á það að úti í samfélaginu væri rætt að hér stundaði Miðflokkurinn málþóf. Það má vera að einhverjir horfi svo á og líti það þeim augum að þetta sé málþóf. Það fer eftir því hvaða skilgreining er lögð til grundvallar. En það sem við gerum hér og stöndum fyrir er að standa gegn ofríki. Og ef þetta er málþóf þá er verið að beita okkur ofríki, vegna þess að það er algjört neyðarbrauð fyrir flokka sem eru í minni hluta og geta ekki stýrt stefnunni, að halda umræðunni áfram í þeirri von að mönnum snúist hugur og taki upplýsta afstöðu, að menn taki rökum og að menn íhugi að þetta mál er bara þeirrar gerðar að það liggur ekkert á.

En það vekur furðu mína, hv. þingmaður, að hér sé það gert í heila viku þegar skammt er til þingloka — hér eru gríðarlega stór mál sem bíða og sem taka þarf fyrir í þinginu — að hér láti menn eins og það sé bara ekkert annað sem þurfi að gera en að hlusta á Miðflokksmenn kafa ofan í mál sem hægt væri að gera í sumar eða næsta haust.