150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á því að vekja athygli hv. þingmanns á skilyrðum laga fyrir fjáraukalögum og þau eru svipuð og fyrir nýtingu almenns varasjóðs. Við afgreiddum fjárheimildir fyrir almannatryggingakerfið í fjárlögum yfirstandandi árs og ég kalla eftir því að hv. þingmaður útskýri hvort eitthvað hafi gerst sérstaklega, í bótakerfunum eða í stöðu þeirra sem treysta á lífeyri almannatrygginga, sem kalli á þau viðbrögð sem hv. þingmaður er að kalla eftir. Og þegar hv. þingmaður segir að ekkert virðist vera til í sjóðum ríkissjóðs til að styðja við þessa hópa þá verð ég algerlega að hafna þeirri sýn hans. Við höfum verið með algerlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum sem hafa því sem næst tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslu á fáum árum. Það breytir því ekki að við erum því miður í þeirri stöðu að geta ekki skapað nægjanleg verðmæti hér á Íslandi til þess að tryggja öllum Íslendingum sem hafa ekki getað nýtt starfsævina til að byggja upp lífeyrisréttindi sín þann stuðning að þeir eigi auðvelt með að komast af. En við gerum betur en flestir og við gerum betur í dag en nokkru sinni fyrr. Við höfum þess vegna verið á réttri braut og með því að halda áfram að skapa verðmæti, með því að loka að nýju fjárlagagatinu sem er verulegt á þessu ári, mun okkur vonandi auðnast í framtíðinni að halda áfram að gera vel í þessum efnum.