151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru algerlega raunhæfar áhyggjur hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þessar vangaveltur um að við séum hugsanlega að ganga of langt. Það er alveg hægt að færa rök fyrir því að við þurfum ekki að hafa svo miklar áhyggjur. Við erum samt í svolítið breyttu samfélagi. Þegar ég var ungur þá unnu menn bara meira ef þeir þurftu. Menn kláruðu þetta. Menn kláruðu þetta meira að segja á misgengisárunum upp úr 1980, þegar verðbólga var 100%. Þá voru þeir bara í 100% meiri vinnu. En sá veruleiki er ekki lengur fyrir hendi hjá fólki með sama hætti áður, alla vega ekki huglægt. Það er kallað nútíminn, sem er orð sem fer afskaplega í taugarnar á mér. Það má alveg færa rök fyrir því, og ég væri alveg tilbúinn að ræða það nánar í nefndinni, hvort hér sé of langt gengið og hvort það geti verið að efnahagslegur stöðugleiki sé undir, einhverjir verulegir hagsmunir þjóðarbúsins, ef við göngum eitthvað skemur. Ég er ekkert viss um það. En þetta er mat sérfræðinga í þessu, að það sé þannig að óstöðugleiki gæti skapast í fjármálakerfinu sem gæti skaðað okkur öll. Það er á þeim forsendum sem ég samþykki þetta. En ég tek undir það enn og aftur að í mörgum öðrum málum göngum við svo langt að óþörfu að það skaðar mjög svigrúm og frelsi einstaklinga.