140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:28]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Hann nefnir þessi hnattrænu rök fyrir álversvæðingu eða stóriðjuvæðingu atvinnulífsins og þau eru gamalkunnug og hafa margoft verið notuð af þeim sem hafa viljað byggja upp áliðnaðinn í landinu.

Ég fór í gegnum nokkur rök sem ég held að mikilvægt sé að hafa í huga í þessum efnum. Eitt af því lýtur að einhæfni atvinnulífsins. Ég held að það sé betra fyrir íslenskt atvinnulíf að við séum með fjölbreytta atvinnustarfsemi og þurfum ekki að treysta á það að ein eða örfáar atvinnugreinar standi undir þeirri verðmætasköpun og hagsæld sem við viljum byggja upp í landinu.

Sömuleiðis eru góðu heilli að skapast forsendur núna fyrir því að við fáum samkeppni um orkuna sem er til staðar. Hún er hins vegar ekki óþrjótandi. Því miður eru þetta takmarkaðar auðlindir, sem við sjáum af því að við höfum ekki endalaust svigrúm til þess að bæta við vatnsaflsvirkjunum í landinu af augljósum ástæðum. Það eru að skapast hér forsendur til þess að aðilar keppi á samkeppnisgrundvelli um orkuna. Við sjáum dæmi um að þeir eru tilbúnir til að borga hærra verð á hverja orkueiningu en álverin hafa gert og ofan í kaupið er það fyrir atvinnustarfsemi sem skilar minni umhverfisáhrifum en áliðnaðurinn hefur gert. Þetta þurfum við því allt að skoða í samhengi.

Ég er ekki talsmaður neinna trúarbragða í þessum efnum. Ég nefndi það í ræðunni að áliðnaðurinn skapaði þjóðarbúinu ákveðnar tekjur en ég held að við séum komin á þann stað að það sé skynsamlegast hjá okkur núna að ýta undir vistvænar fjárfestingar sem gera allt í senn, skapa góð störf sem skila góðum tekjum, (Forseti hringir.) eru ekki frek gagnvart umhverfinu og þýða sömuleiðis að orkufyrirtækin fái hátt verð fyrir orku sína.