144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[15:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gat þess að þetta frumvarp væri breytt frá því sem hún lagði fram í fyrra og gat þess sérstaklega að það varðaði, að því er mér skildist, það sem sagði þar um létt bifhjól. Eins og hæstv. ráðherra man urðu hér mjög miklar umræður um einmitt það ákvæði frumvarpsins sem lagt var fram í fyrra. Þá var skilgreiningu á léttum bifhjólum breytt þannig að þau voru felld í flokk hjóla sem komast upp í 25 km hraða á klukkustund, voru áður flokkuð sem reiðhjól.

Frumvarpið í fyrra virtist mega skilja þannig að setja ætti þá sem eiga í dag slíkt hjól í sérstakt próf. Þessu mótmæltu margir þingmenn. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún segir að tekið hafi verið mið af umræðum hér í fyrra: Er það svo? Ég sé ekki í frumvarpinu sem liggur fyrir núna að þessu hafi verið breytt.