138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að blanda mér í þessa umræðu um Icesave eftir kostulega ræðu þingflokksformanns Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Hún fór yfir ákveðna sögulega skýringu sem hv. þingmaður telur grundvöllinn að þeirri afstöðubreytingu sem varð hjá henni. En nú er það svo að í febrúar tók við ný ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar og í vor fóru fram kosningar. Markmið ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar var það, miðað við greinar hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, afstaða hans kom þar fram áður en hann varð ráðherra, að það skyldi út með AGS og það skyldi aldrei talað um að semja um Icesave. Hins vegar þegar hæstv. fjármálaráðherra er kominn til valda þá tekur hann sig til, lofar glæsilegri niðurstöðu varðandi Icesave og kynnir það varla fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna sem samþykkja málið óséð, svo sögulegum staðreyndum sé haldið til haga. Síðan leyfir hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sér að kalla þetta góðar fréttir, hæstv. forseti.

Alþingi Íslendinga tók þetta mál til afgreiðslu í sumar eftir tveggja mánaða umfjöllun. Hvernig er svo farið með þá niðurstöðu sem þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstæðingar, lofuðu í hástert, þessa meðferð, þessa samstöðu þingsins? Hvernig er svo farið með þetta í þingsölum? Það er blásið á þetta, þing og þjóð eru gerð að engu, og ekki síst er ríkisstjórnin gerð að athlægi. Það er eitt að semja og vilja semja en það er allt annað að semja af sér.