148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt að tveir dansi tangó en annað að átta dansi tangó. Við erum með átta þingflokka á Alþingi. En vitaskuld tek ég undir með hv. þingmanni. Ég vil meina að það sé ansi margt sem myndi bæta hlutina meira en fólk telur. Ég hygg til dæmis að það myndi breyta fleiri hlutum en fólk heldur ef ráðherrar væru ekki þingmenn. Það virðist vera ákveðið formsatriði. Þá eru þeir ekki með atkvæðisrétt á Alþingi. En ég held að afleiðingarnar af slíkri breytingu væru meiri en fólk telur sér trú um. Önnur hugmynd sem komið hefur upp af og til er að forseti þingsins, með fullri virðingu fyrir honum að sjálfsögðu, tilheyri ekki ríkisstjórnarflokki. Það myndi líka breyta dínamíkinni smávegis. Þetta eru einfaldar tillögur, þetta er ekki flókið og ekki dýrt, andstætt því sem margir vilja meina.

Annað sem ég kom inn á í lokaorðum mínum sem ég held að gæti aðeins breytt ásýnd þingsins til hins betra, væri ef nefndarfundir væru að jafnaði opnir, auðvitað með alls konar skilyrðum. Gestum þarf að líða vel með það þannig að þeir eiga að geta sagst vilja mæta á lokaðan fund ef þeir vilja tjá eitthvað sem þeir vilja ekki gera opinbert. Líklega myndi utanríkismálanefnd oftar halda lokaða fundi en meginþemað væru opnar nefndarfundir því að samstarfið í nefndum er oft mjög gott.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður kom inn á, að minni hlutinn greiði oft atkvæði með tillögum meiri hlutans, þá held ég að munurinn felist í því að minni hlutinn er ekki að reyna að halda saman ríkisstjórn. Það held ég að sé kjarninn í þessu öllu saman. Þegar metnaðurinn felst í því aðalmarkmiði að halda saman ríkisstjórn yfirtekur það hitt hlutverkið sem almenningur krefst af okkur, sem er að greiða í fyrsta lagi atkvæði í samræmi við sannfæringu okkar og stefnu flokks okkar og þess sem við tjáum kjósendum í kosningum. Það tel ég vera rót vandans.