144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú svo heppin að sitja hér við hliðina vitsmunaverunni hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem benti mér á að hér væri hv. þm. Össur Skarphéðinsson með snjalla gildru sem hann ætlaði að leggja fyrir mig í von um að skapa ágreining á milli mín og míns kæra flokksfélaga, hv. þm. Ögmundar Jónassonar um gildi eignaeinkaréttarins, en ég mun ekki falla í þá gildru. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég varpaði fram þessum sálfræðikenningum aðallega af því ég hef engar heyrt betri, ég hef engar betri kenningar heyrt um flýtinn. Ég bíð enn eftir því og brýni hv. þingmenn meiri hlutans í að koma og rökstyðja það betur af hverju menn séu að drífa sig svona fjarska mikið með þetta mál. Meðan þær skýringar koma ekki get ég auðvitað leyft mér að vera með ýmsar kenningar. Ég ætla þó ekki að kalla þær mjög fagmannlegar eða byggðar á mikilli þekkingu annarri en átta ára reynslu af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, af ýmsum í þeirra hópi.

Hvað varðar eignarnámið þá held ég að þótt við hv. þm. Ögmundur Jónasson getum verið sammála um að ástæða sé til að ræða einkaeignarréttinn teórískt, þá búum við ákveðið skipulag í landinu þar sem land er í einkaeign og það að taka það eignarnámi hlýtur ávallt að þurfa að rökstyðja með miklum almannahagsmunum. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir réttilega á þá gætu þeir til að mynda verið yfirþyrmandi atvinnuleysi eða eitthvað slíkt, en því er ekki til að dreifa hér. Þannig að ég ætla að leyfa mér að reyna að sleppa úr þessari gildru með því að vera sammála þeim báðum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Ögmundi Jónassyni, og segi það líka að það sem vekur athygli þegar maður les umsagnir um þetta mál frá heimamönnum, sveitarstjórn Skeiða- og Gnjúpverjahrepps, ýmsum ábúendum við bakka Þjórsár, að þær eru flestar á sama veg, sem er hvatning til okkar þingmanna að bíða eftir niðurstöðum eins og ég hef margítrekað sagt hér í stuttum ræðum mínum.