144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnisríka ræðu. Það voru nokkur atriði í henni sem ég staðnæmdist sérstaklega við og eitt var þegar hún nefndi það vaxandi vandamál sem við búum við sem er ágangur á viðkvæmar náttúruperlur. Ég vildi þess vegna færa í tal við hana þá staðreynd, sem athygli mín hefur verið vakin á af fagfólki, að það vantar alveg að reikna hvers virði Urriðafoss geti verið óbreyttur. Hann er einu sinni vatnsmesti foss Íslands og er eiginlega aðgengilegur frá hringveginum, það þarf litla vegarlagningu að honum, það er hægt að gera hann að segli í alfaraleið og dreifa þar með álaginu sem nú þegar er orðið mikið uppi við Gullfoss og annars staðar þar sem fólk vill sjá alvörufossa. Það hefur aldrei verið reiknað út hver ávinningurinn kunni að vera í ljósi ferðaþjónustunnar og vaxandi þarfar hennar fyrir staði til að fara með fólk á, hvers virði Urriðafoss getur þannig orðið.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í umræðu fyrir þremur árum vildu mjög margir þingmenn, sex ef ég man rétt — meðal annars margir framámenn í stjórnarliðinu nú, hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hæstv. þingforseti Einar K. Guðfinnsson — ekki ráðast í virkjun Urriðafoss fyrr en frekari rannsóknir hefðu farið fram vegna þess að það væru umdeildur kostur.

Ég vil spyrja út frá þessari nálgun hv. þingmanns: Er þetta ekki útfærsla sem þyrfti að hugsa miklu betur? Hvers virði væri Urriðafoss óvirkjaður sem áfangastaður ferðamanna í ljósi þessarar vaxandi þarfar?