150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

útfærslur framhaldsskólanna á námi á tímum kórónuveirufaraldursins.

882. mál
[11:32]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Kórónuveiran hefur haft gríðarlegar afleiðingar. Menntaskólum var lokað, því færðist nám alfarið yfir í fjarkennslu. Gríðarlegur munur virðist vera á milli skóla á því hvernig nám var útfært og svo virðist sem margt hafi tekist vel en annað ekki. Hvatning mín til að vinna þessa skýrslubeiðni kom til vegna frétta um erfiðar aðstæður jafnt sem góðar upplifanir kennara og nemenda. Það er mikilvægt að draga lærdóm af góðum árangri á þessum tíma sem og þeim hindrunum sem voru í veginum. Þann lærdóm má svo nýta áfram til að skapa fjölbreyttara námsumhverfi og horfa til framtíðar varðandi námsframboð til nemenda, óháð búsetu og stöðu. Einnig er mikilvægt að horfa til líðanar nemenda og kennara á þessum tíma og hvernig hægt sé að koma tvíefld til baka með úrræði og verkfæri í farteskinu.