138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég skora eindregið á hæstv. umhverfisráðherra að draga þetta til baka. Eru þetta fordómar sem eru hér á ferðinni gagnvart skotveiðinni, eða hvað er hér á ferðinni? Ég spyr: Er búið að plata skotveiðimenn? Voru þeir plataðir af því hér er talað um hefðbundnar nytjar? Það er engin breyting á stefnunni varðandi hefðbundnar nytjar, þær eiga bara að halda áfram, segir hæstv. ráðherra. Hvað eru þessar skotveiðar annað en hefðbundnar nytjar? Menn hafa staðið í þeirri trú að allir væru upplýstir um að þetta svæði hefur verið nýtt til veiða um langt skeið. Auðvitað er hefðbundið að stunda þarna veiðar á gæsum og rjúpum og hreindýrum. Þannig að óbreytt stefna varðandi hefðbundnar nytjar eru ekki önnur skilaboð til skotveiðimanna en að þeir geti verið rólegir, það eigi ekkert að breytast.

Svo kemur hérna í drögum að verndaráætlun að banna eigi veiðarnar. Rökin eru alveg ótrúlega veik eins og Skotveiðifélag Íslands bendir á. Með leyfi forseta:

„Umferð um svæðið að hausti getur valdið spjöllum á vegum og krefst aukins eftirlits og viðveru landvarða.“

Virðulegur forseti. Ég tel að stjórnvöld séu á miklum villigötum hér ef ætlunin er að fara fram af því sem ég vil kalla „óbilgirni“ í garð skotveiðimanna. Það eru ekki nógu sterk rök færð fram fyrir því að þurfa að banna veiðar á þessu svæði. Það krefst auðvitað aukins eftirlits væntanlega löggæsluaðila ef veiðar verða bannaðar þarna þannig að þetta sléttast út. Varðandi umferðina, það má taka á því með öðrum hætti.

Virðulegur forseti. Ég skora eindregið á hæstv. umhverfisráðherra að draga þetta til baka og skapa sátt um þjóðgarðinn fyrir bæði heimamenn (Forseti hringir.) og þá sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila, það kom greinilega fram í svari hæstv. umhverfisráðherra.