131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:44]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að fara að deila um það hvort þetta muni auka brottkast eða ekki, ég er ekki sérfræðingur í brottkasti eins og kannski sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að á sama peningi eru tvær hliðar og þegar ég tala um sömu reglur fyrir alla getur það gengið í þá átt að það þurfi frekar að slaka á varðandi þá sem búa við harðari reglur en að setja ívilnandi reglur fyrir lítinn hluta flotans. Ég er alveg tilbúinn til að taka þá umræðu hvar sem er og hvenær sem er og tel að það geti vel komið til greina að reyna aðeins að stemma stigu við því brottkasti sem er örugglega enn í hefðbundnum fiskveiðum með því að heimila mönnum að koma með þann afla að landi án þess að það kosti þá verulegar sektir eða íþyngjandi greiðslur vegna ólögmæts sjávarafla.

Ég get líka tekið undir að auðvitað eiga menn að skoða það í fullri alvöru með tegundir eins og keilu, löngu, skötusel og fleiri tegundir hvort það séu fiskifræðileg rök fyrir því að kvótabinda það með þeim hætti sem gert er í dag. Við erum algjörlega sammála um það, ég og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, að full ástæða sé til að skoða það.

Ég sé ekki varðandi þá afstöðu mína að vilja hafa sömu reglur fyrir alla sem stunda sömu atvinnugrein á Íslandi að í því geti speglast einhverjar spekúlasjónir um það hvort ég sé kvótaandstæðingur eða fylgjandi kvótakerfinu. Ég hélt að afstaða mín varðandi það lægi alveg kristaltær fyrir, ég er andvígur því kerfi sem við búum við í dag og tel að við þurfum að gera á því talsvert miklar breytingar. Það kemur því ekki við að ég vil helst ekki vera þátttakandi í að setja reglur á Alþingi þar sem við tökum út einn flokk manna úr ákveðinni atvinnugrein og setjum þeim mun meira ívilnandi reglur en öðrum í sömu atvinnugrein.