149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að reikna með því að að þeir aðilar sem hafa lagt fjármuni í undirbúning verkefnis sem þessa geri það ekki með því að skjóta algerlega út í myrkrið. Þeir telja sig hafa einhverja fullvissu fyrir því eða telja að það séu nægjanlega mikil líkindi til þess að verkefnið verði að raunveruleika til að réttlæta það að setja undirbúnings- og grunnfjárfestinguna af stað. Sú frétt sem birtist núna setur í áhugavert samhengi staðhæfingar hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að send hafi verið sérstök beiðni um að taka svokallaðan IceLink út af PCI-listanum. Það hlýtur að vera töluvert áfall fyrir verkefni eins og þetta. Maður veit ekki hvort fréttaflutningur af þessu sé hugsaður sem hluti af því að viðhalda verkefninu eða finna leið til að tryggja að þessi tenging hangi inni í PCI-umhverfinu. Ég held alla vega að fjárfestar sem fara í svona mikla undirbúningsvinnu hafi alltaf fleiri en eitt plan hvað það varðar að ljúka því. Þá eru ágætar líkur á að plan B sé lögfræðilega leiðin í gegnum eftirlitsaðilann þegar þar að kemur. Menn fara alla vega ekki í svona undirbúning alveg út í bláinn