149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætla í ræðu minni að halda áfram með meginniðurstöður álitsgerðar lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Ég var staddur í minni síðustu ræðu þar sem þeir höfðu verið að fjalla um hugsanlegar bótakröfur og sögðu, með leyfi forseta:

„Hvað sem líður hugsanlegum bótakröfum af þessum toga hefur vafi um stjórnskipulegt gildi innleiðingar þriðja orkupakkans í för með sér réttaróvissu sem ekki verður við unað.“

Þannig komast þeir að orði, að það hefði í för með sér réttaróvissu sem ekki yrði við unað. Álit þeirra félaga er þannig skýrt um að þeir telja verulegan vafa leika á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA, samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713, rúmist innan stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þetta er að finna á bls. 36. En í lok álitsgerðarinnar á síðustu blaðsíðunni, á bls. 43, benda þeir á, svona eins og rétt til að minnast á það, að möguleg lausn væri í málinu eins og þeir orða það — möguleg lausn.

Hana er að finna á bls. 43, í sjö og hálfri línu, með leyfi forseta:

„Möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri, t.d. 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, öðlist ekki gildi, enda er slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi. Grunnforsenda þessarar lausnar væri þá sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri, heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands. Ef Ísland tæki ákvörðun um að leggja grunnvirki yfir landamæri, yrðu ákvæði þriðja orkupakkans um grunnvirki yfir landamæri tekin að nýju til skoðunar og þá m.a. með tilliti til þess hvort þau samrýmist stjórnarskránni. Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“

Ég er alveg sammála þeim ágætu lögfræðingum um að þessi lausn er ekki gallalaus. Það gefur augaleið. Bara þessi síðasta setning um að skoða ætti ákvæði þriðja orkupakkans ef hingað yrði lagður sæstrengur. Hver á að skoða ákvæði þriðja orkupakkans ef menn taka ákvörðun um að leggja sæstreng hingað? Hver á að skoða það? Ætlum við að skoða það? Þetta eru reglur sem gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, ef til kemur. Ætlum við að fara að endurskoða það? Hvað er verið að meina með þessu? Ég átta mig bara alls ekki á þessu.

Félagarnir segja að lausnin sé ekki gallalaus. Ég átta mig á því að þetta er ekki fullkomið. Ýmislegt annað má finna að þessari mögulegu lausn og við höfum nefnt t.d. þennan lagalega fyrirvara. Þar er sagt að 8. gr. öðlist ekki gildi. Hvernig getur 8. gr. ekki öðlast gildi, frú forseti, ef hún er innleidd í íslenskan rétt? Hvernig getur hún ekki öðlast gildi? Hvernig í ósköpunum er hægt að innleiða eitthvað, 8. gr. þar á meðal, og segja svo að hún öðlist ekki gildi? Þetta er langt fyrir ofan minn skilning, frú forseti.

Hvar eru fyrirmælin um efni lagalega fyrirvarans? Hvar eru fyrirmælin um efni hans? Hvers efnis á þetta að vera eða hvar skal hann settur? Hvar er að finna fyrirmæli um efni og form lagalega fyrirvarans? Hvernig verður hann úr garði gerður? Hvar er lögfræðileg álitsgerð um hvar hann á að vera og hvers efnis hann á að vera? Hvar er lögfræðilega álitsgerðin um það? Átti þetta að vera reglugerð úr ráðuneytinu? Var það meiningin? Hvar kemur það fram? Átti þetta að vera breyting á raforkulögunum? Hvar kemur það fram? Er búið að rannsaka þá leið, hvort það standist?

Mörgum álitaefnum hér er ósvarað.