131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:56]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að þessi breyting hafi verið betri en kyrrstaða. Það er sama og að segja: Það er betra að gera vitlaust en að gera ekki neitt.

Hv. þingmaður talar hérna þvert um huga sinn því að ég veit að hann er sammála mér í því að þessi breyting sem gerð var síðast var alveg arfavitlaus. Hann segir að hv. þingmenn hugsi í dag í stærri heildum en áður. Vera má að svo sé. En hv. þingmaður er þingmaður í þægilegasta kjördæminu þar sem menn þurfa varla að hreyfa sig meira en nokkra kílómetra. Hann ætti að reyna að setja sig í hlutverk þingmanna í hinum stóru kjördæmum sem eru bara undirlagðir af því að reyna að sinna sínum kjördæmum með endalausum ferðalögum við alls konar aðstæður. Það er auðvelt að búa í Hafnarfirði og dandalast hérna í kringum Reykjavík og segja svo svona.

Málið er nú bara að þetta er eitthvert arfavitlausasta mál sem hér hefur verið samþykkt og því eru flestir sammála. Hv. þingmaður segir að þetta sé umdeilt og ekki gallalaust og það er svo sannarlega rétt hjá honum. Þetta er umdeilt og ekki gallalaust. Þetta er einfaldlega arfavitlaust og því fyrr sem hv. þingmaður viðurkennir það því betra.