136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Fyrirtækið HB Grandi er öflugt fyrirtæki sem er með starfsstöðvar sínar á Akranesi og Vopnafirði og hefur þar í bæ byggt upp mjög myndarlega starfsemi. Slík fyrirtæki eru okkur mikilvæg á tímum sem þessum. Það er sjálfsagt að fólk fái arð af sparifé sínu almennt, við megum ekki fordæma arðgreiðslurnar sem slíkar, fjárfesting í atvinnustarfsemi er jákvæður hlutur. Við þurfum hins vegar að horfa á þetta mál í því samhengi að miklir erfiðleikar eiga sér stað í íslensku samfélagi, verið er að skerða laun á almennum vinnumarkaði og að sjálfsögðu þarf samspil launakostnaðar og arðgreiðslna að vera í einhverju samhengi sem var ekki í þessu máli. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það, herra forseti, að búið sé að ná sáttum á milli aðila í þessu máli. Við framsóknarmenn höfum lagt mjög ríka áherslu á það að allir eigi að ganga í takt í samfélaginu, það á við um stjórnmálamenn, atvinnurekendur og launafólk. Við þurfum að fara saman í gegnum þá erfiðleika sem blasa við okkur og þess vegna er ég mjög ánægður með að menn skuli hafa náð sátt í þessu máli. Ég get tekið undir það með hv. þingmönnum sem það hafa sagt að málið hafi verið klaufalegt af hálfu atvinnurekenda.

Hæstv. forseti. Við þurfum að tala fyrir sáttum í íslensku samfélagi og það er nöturleg staðreynd að allir þurfa að gera ráð fyrir því að kjör okkar muni að einhverju leyti skerðast á næstu vikum og mánuðum. Það á við um þá sem hafa fjárfest í atvinnustarfsemi, launafólk og samfélagið allt. Við þurfum að standa saman á þessum erfiðu tímum því að í sameiningu eru okkur allir vegir færir, herra forseti, og fyrir því tölum við framsóknarmenn.