149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég verði að fallast á mat hv. þingmanns á því að mjög margar vísbendingar séu að koma fram um að það sé algjörlega nauðsynlegt að líta á þetta mál í heild, þ.e. þriðja og fjórða orkupakkann, og svo það sem kann að gerast í framtíðinni og stefnir í að gerist eins og sakir standa varðandi tengingu um sæstreng. Sérstaklega er þetta mikilvægt í ljósi þess að menn hafa notað þá staðreynd að Ísland hafi þegar innleitt fyrsta og annan orkupakkann sem sérstök rök fyrir því að við þurfum að innleiða þann þriðja. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig staðan verður þegar þann fjórða rekur á fjörur okkar, hvort Evrópusambandið muni ekki vísa í málflutning ríkisstjórnarinnar vegna þriðja orkupakkans og segja að það sama eigi svo sannarlega við og ekki síður um þann fjórða. Hann er beint framhald af þriðja orkupakkanum á meðan þriðji var óbeint framhald af þeim fyrsta og öðrum, sem kallaðir voru raforkutilskipanir en ekki orkupakkar þar til síðar.

Hvað varðar svo umræðu meðal formanna flokkanna um þetta mál hafa þær engar verið, a.m.k. ekki svo heitið geti, ekki svo að ég hafi verið hafður þar með í ráðum, sem er merkilegt í ljósi þess hversu stórt þetta mál er og í ljósi þess hvað ríkisstjórnin virðist leggja mikla áherslu á að koma málinu í gegnum þingið. En það er þá eftir öðru að menn skuli ekki hafa rætt þetta milli formanna flokkanna því að stjórnarliðar virðast ekki hafa áhuga á að ræða þetta mál yfir höfuð, sama hvað kemur í ljós, sama hvaða nýju upplýsingar birtast, hvort heldur sem er hér á Íslandi eða í erlendum stórblöðum, að menn halda sig til hlés. Enginn stjórnarliði er hér í salnum, ekki einu sinni í hliðarherbergjum, og ég leyfi mér að efast um að þeir séu að fylgjast með þessari umræðu.