149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langaði að fara yfir eitt með honum. Við höfum rætt það margsinnis að innleiðing á þriðja orkupakkanum kemur til með að skapa mikla óvissu og setja óþarfakvaðir á nýtingu íslenskra auðlinda. Hins vegar er áhættulaust að hafna innleiðingu og fara þá lögformlegu leið sem okkur stendur til boða.

Má ekki segja að þeir sem greiða atkvæði með þessari tillögu séu að og vilji í raun tryggja að íslenska raforkukerfið komi til með að tengjast Evrópusambandinu og það verði ekki aftur snúið?

Maður veltir fyrir sér hvaða hagsmunum er verið að þjóna. Er verið að þjóna einhverjum duldum hagsmunum sem við sjáum ekki?

Það sem vekur athygli í þessari umræðu líka er að maður hefur séð blaðagreinar eftir aðila sem hafa verið í stjórnmálum og hafa verið á móti orkupökkunum en eru núna fylgjandi þeim. Ef maður skoðar viðkomandi aðila betur sést að þeir eiga orðið tengsl inn í þennan geira, orkugeirann. Maður veltir fyrir sér: Breyta menn þá um skoðun af því að þeir eru tengdir orkugeiranum núna en voru það ekki áður? Þetta er áhugavert rannsóknarefni.

Erum við að tala um einhverja dulda hagsmuni eða einhvers konar pólitískan þrýsting sem stjórnvöld og ríkisstjórnin vill ekki viðurkenna?