136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

tilhögun þingfundar.

[14:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Vegna ummæla sem hér féllu áðan (Gripið fram í.) — herra forseti, get ég fengið þögn, takk fyrir.

Við erum hér með langa dagskrá, það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. En eins og er hjá ríkisstjórninni almennt ægir hér öllu saman. Inni á milli eru vissulega brýn mál sem varða hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, þau eru nokkur. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að við viljum gjarnan afgreiða þau. Meiri hluti þessara mál er hins vegar ekki í neinu samhengi við efnahagsvandann sem við eigum við að stríða. Þetta sýnir í hnotskurn þann mikla vanda sem ríkisstjórnin glímir við, henni er gersamlega ómögulegt að forgangsraða, henni er gersamlega ómögulegt að skipuleggja sig þannig að þingið geti gengið til þeirra verka sem mikilvægust eru.