140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

valfrelsi í skólakerfinu.

[10:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og líka það sem ég tel afar mikilvægt, hvernig hún lítur á málið. Ráðuneytið er að fara yfir þetta en það hefur í raun ekki boðvald yfir sveitarfélögunum í þessu máli, við verðum að átta okkur á því. Ég tel afar þakkarvert af hálfu ráðherra að hún sé að fara yfir málið með sveitarfélögunum, ekki síst Reykjavíkurborg sem hefur einhliða sett nýjar skorður gagnvart börnum sem hafa nú verið útilokuð frá Klettaskóla. Ég hef rætt við aðstandendur þessara barna og niðurstaðan er alltaf sú sama, það er ákveðinn valkvíði foreldra og hræðsla við að hafa ekki lengur þær leiðir sem eru hugsanlega bestar fyrir börnin. Ég held að við verðum ávallt að hafa það í huga um leið og ég undirstrika að við megum ekki hvika frá meginreglunni um skóla án aðgreiningar. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg og við eigum að hafa hana ávallt að leiðarljósi. Þá verðum við líka að undirbúa kerfið okkar þannig að börnin sem njóta sín ekki innan hins hefðbundna (Forseti hringir.) skólakerfis hafi aðra möguleika til að njóta sín.