140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt í nafni jöfnuðar sem meira að segja stöndug ríki og rík samfélög hafa orðið fátæk vegna þess að stjórnendur þessara ríkja lofuðu jöfnuði og jöfnuðu alla niður á við, gerðu alla jafnfátæka. Um þetta eru fjölmörg dæmi. Það er ekki jöfnuðurinn sjálfur sem er markmiðið heldur það að auka auðlegð og velferð þjóðanna. Það er grundvallaratriðið. Þannig verða tækifærin til og fjölbreytileikinn. Þannig finna sem flestir einstaklingar kröftum sínum og getu viðspyrnu. Þannig miðar okkur smám saman áfram. Það er ekkert sjálfgefið að sérhver kynslóð sem tekur við verði betur stödd eða ríkari en sú sem á undan gekk. Það er ekki sjálfgefin niðurstaða.

Ég er aftur á móti sammála hv. þingmanni um að sú skattlagning sem hér er lagt upp með muni hafa mjög alvarleg áhrif á landsbyggðina. (BJJ: Rétt.) Hún dregur úr möguleikum fyrirtækja sem þar starfa til að fjárfesta í nærumhverfi sínu, til að taka þátt í samfélaginu þar til að styrkja íþróttir, menningarstarfsemi og annað slíkt, og til að greiða hærri laun. Þrátt fyrir það sem hér hefur komið fram um að það sé hægt að draga þennan lið frá gjaldinu er augljóst að með því að arðurinn minnkar, þ.e. arður tekinn úr greininni og hann er færður inn til ríkisins, minnka þegar fram í sækir möguleikarnir til að fjárfesta, til að auka tæknistigið og þar með auka verðmæti hverrar vinnustundar. Það endurspeglast svo í laununum. Þannig gerum við þjóðina miklu fátækari en hún þyrfti að vera. Við drögum úr auðmynduninni.

Þess vegna segi ég: Já, ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að samfélagssáttmálinn haldi. Hann þarf að halda á réttum forsendum. Þessi skattlagning (Forseti hringir.) mun fara illa með þann sáttmála, alveg örugglega.