144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina yfir nefndarálit meiri hluta. Ég er fyrst og fremst með tvær spurningar. Í fyrsta lagi hafa menn haft af því áhyggjur og höfðu það í 2. umr. um þetta mál að flutningsfyrirtækið, þ.e. Landsnet, hefði enn þá yfirburðastöðu samkvæmt frumvarpinu og þá jafnt gagnvart sveitarfélögum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum. Það kom raunar fram í umsögn Sambands sveitarfélaga að sambandið teldi gengið býsna nærri skipulagsvaldi sveitarfélaganna með því að gera ráð fyrir því að ákvarðanir yrðu festar í skipulagi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þá yfirburðastöðu ekki fela í sér áhættu þar sem hún er í raun og veru þvert á þær meginreglur sem gilda í skipulagslögum.

Í öðru lagi, fram koma dæmi í nefndaráliti meiri hlutans um forsendur sem hægt er að byggja á að því er varðar áætlun um þróun raforkuframleiðslu og raforkunotkunar og svo raforkuflutning til annarra landa, og kemur fram að þar hafi verið gert ráð fyrir í dæmaskyni að um gæti verið að ræða nýtingar- og biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í meirihlutaálitinu er áréttað að þarna sé því ekki slegið föstu að sjálfkrafa skuli gert ráð fyrir því að allir virkjunarkostir í nýtingarflokki muni verða virkjaðir og þaðan af síður kostir í biðflokki. Ég bið hv. þingmann að árétta þann skilning meiri hlutans þar sem það kynni að hafa þýðingu sem lögskýringargagn með frumvarpinu, ef það verður að lögum, hver skilningur hv. meiri hluta atvinnuveganefndar er hvað varðar þetta álitamál.