149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Í borgaralegu lýðræði er að finna fáeina burðarbita: Meirihlutavald, sanngirni í garð minni hluta, ábyrgð og málfrelsi sem miðar að skilvirkni í þeirri vinnu sem lýðræðið nær til. Þetta vita allir sem vilja.

Án meirihlutavalds er ekki hægt að ná árangri og þess vegna eru hafðar uppi reglur sem miða að því að meiri hluti, t.d. þings eða sveitarstjórnar, geti þjónað samfélaginu með því að afgreiða mál eftir faglegar og pólitískar umræður. Þetta vita allir sem vilja.

Sanngirni í garð minni hluta felst m.a. í því að hann nái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og jafnvel móta afgreiðslu mála, allt eftir pólitísku landslagi í samkundunni. Á móti reynir upplýstur og sanngjarn minni hluti að virða þau sannindi að ávallt kemur að þeim tíma að rök með eða á móti máli eru ljós orðin, eins þótt ekki verði til nein brú á milli minni og meiri hluta. Þetta vita allir sem vilja.

Málfrelsi fylgir sú ábyrgð að misnota ekki rúmustu fundarsköp, misnota ekki heimildir sem eru ekki einu sinni tiltekinn réttur, svo sem heimild til andsvara, til þess eins að lengja umræður með samtölum við samherja eins og í hverjum öðrum málfundaklúbbi hróðugra og einsýnna manna. Ábyrgð í umræðum felst í því að nýta tíma í raunverulegar rökræður og frelsið í því að nýta það þar til ljós mynd af andstæðum sjónarmiðum eða samstöðu er til orðin. Linnulausar endurtekningar og málalengingar eru andstæðar borgaralegu lýðræði. Þetta vita allir sem vilja.

Leikritið sem alþjóð verður nú vitni að eftir umræður síðustu daga hér á þingi og í fjölmiðlum þar sem öll helstu rök eru komin fram jaðrar æ meira við farsa, bæði sorglegan og grátbroslegan en um leið alvarlegan því að hann hindrar lýðræðislega kjörið þjóðþing í að starfa með eðlilegum og skilvirkum hætti.

Og þá spyr ég: Hverjir vilja kannast við það? Það er efinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)