149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Þingmanninum varð tíðrætt um undanþágur og fyrirvara. Það er nú svo að mikið af umræðunni hefur einmitt snúist um þau tvö atriði, undanþágur og/eða fyrirvara, hvort það haldi. Þá er vitnað í t.d. kjötmálið, hráakjötsmálið og slíkt. Við fengum það, hvað á maður að segja, í andlitið, það hélt ekki vatni og við fengum á okkur dóm sem var okkur mjög dýr og síðan erum við núna að vinna í því máli í nefndum þar sem frumvarp landbúnaðarráðherra snýst um mótvægisaðgerðir vegna dómsins.

Mig langar að spyrja þingmanninn í sambandi við fyrirvarana. Talað er um að fyrirvararnir eða fyrirvarinn, eða hvað við segjum, hvort það er í fleirtölu eða eintölu, sé einhliða og þar af leiðandi aðeins til heimabrúks. Ég spyr þingmanninn: Voru fyrirvarar í kjötmálinu einhliða eða hvað varð til þess að dómur í því máli var okkur í óhag? Var það eitthvað sem við gerðum rangt eða var það alveg fyrir fram vitað að sá dómur myndi verða okkur í óhag? Vorum við bara það einföld eða trúðum við því að við værum með málið í höndunum okkur í hag? Mátti gefa sér fyrir fram að það myndi fara svona?