136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

tilhögun þingfundar.

[14:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er til skammar að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki gera þinginu grein fyrir því af hverju mikilvæg mál sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu eru ekki rædd hér í þingsal.

Hugsanlega getur sjálfskipaður blaðafulltrúi hæstv. forsætisráðherra, Árni Páll Árnason, gert það, sem sagði að hér væru mikilvæg mál á ferðinni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Hvaða mál eru það? Eru það lífsýnasöfn? Er það visthönnun vöru sem notar orku? Er það árlegur vestnorrænn dagur? (Gripið fram í.) Er það samráðsfundur sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda? (Gripið fram í.) Er það samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum fulltrúum?

Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Það er verið að fylla dagskrána af alls kyns málum sem engu skipta hvað varðar þau brýnu viðfangsefni sem fólkið í landinu bíður eftir að ríkisstjórnin taki á. Hæstv. forsætisráðherra verður að fara að (Forseti hringir.) svara því hvenær þau mál koma fram, herra forseti.