138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls um störf þingsins, ég var á þremur nefndarfundum í morgun og það vefst alltaf svolítið fyrir mér að skilja dýnamíkina í þinginu. Þingið, og oft þingnefndir, er fast í hlutverki stjórnar og stjórnarandstöðu sem einhver hefð virðist vera fyrir. Við höfum oft lýst því yfir í Hreyfingunni að Hreyfingin er ekki í stjórnarandstöðu heldur tökum við afstöðu með og á móti málum á grundvelli þeirra, hver sem þau eru. En umfjöllun um mál er samt oftast nær föst í þessum hjólförum.

Ég fór að velta fyrir mér niðurstöðum kosninganna. Ástæðan fyrir því að hér er við völd ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er einfaldlega sú að þau vildu ekki hafa Framsóknarflokkinn með í samstarfi, þau vildu ekki hafa Hreyfinguna með í samstarfi og þau vildu ekki hafa Sjálfstæðisflokkinn með í samstarfi. Formenn þessara flokka túlkuðu niðurstöðu kosninganna á þann veg að vegna þess að flokkarnir fengu ákveðinn þingmeirihluta í kosningunum hefðu þau óskoraðan rétt til að mynda ríkisstjórn þessara tveggja flokka án samráðs við aðra á þingi. Þegar maður veltir þessu fyrir sér og jafnframt þeirri umræðu sem var í samfélaginu í aðdraganda kosninga var það alls ekki hald manna að slíkt væri æskilegt fyrirkomulag miðað við það sem á undan var gengið. Ég leyfi mér að leggja til að þingmenn og stjórnmálamenn almennt fari að hugsa þessa hluti upp á nýtt af alvöruróttækni og gera sér grein fyrir því að þetta fyrirkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu og þessi hjólfarapólitík er ekki til hagsbóta fyrir stjórnmálin og það er ekki til hagsbóta fyrir almenning. Það eru mjög veigamikil mál í nefndum sem næst ekki samkomulag um eingöngu vegna þess að fólk horfir á þau sem mál frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Um leið og þeir sem ekki eru í stjórn koma með tillögur er þeim hafnað (Forseti hringir.) af prinsippástæðum. Það er bara röng stjórnun.