140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

skuldamál heimilanna og umboðsmaður skuldara.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er að vonast til þess að við getum fengið einhverja niðurstöðu í lánsveðin áður en þingi lýkur og við munum leggja okkur öll fram um að svo verði. Hvort það kallar á lagabreytingu eða ekki er algerlega óvíst.

Varðandi það hvernig taka á á greiðsluvandanum hygg ég að við munum sjá hvernig það birtist í komandi fjárlögum, þá í gegnum barna- og vaxtabætur þar sem við munum skoða sérstaklega þá hópa sem verið hafa í miklum greiðsluvanda og koma fram í úttekt Seðlabankans.

Varðandi umboðsmann skuldara hefur verið sett mikið fjármagn og mikill mannskapur í að fara yfir þau mál sem við töldum vera mjög mikilvæg en ég verð að segja að það olli mér nokkrum vonbrigðum hve hægt og seint það gengur að klára mál á þeim vettvangi. Það hefur líka valdið mér miklum vonbrigðum að sérstök greiðsluaðlögun skuli ekki skila sér hraðar inn. Ég veit að hún er ekki fljótvirk en hún á að geta skilað sér mjög vel til þeirra sem geta nýtt hana (Forseti hringir.) og ég tel fulla ástæðu til að endurskoða starf umboðsmanns, að kanna hvort endurskipuleggja megi það með einhverjum hætti.