140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Launakostnaður útgerðarinnar er dreginn frá þeim stofni sem koma á til útreiknings gjaldsins þannig að ég sé ekki að það hafi nein áhrif á launakostnað, á tekjur sjómanna þó að útgerðin greiði eðlilegt auðlindagjald inn í samfélagssjóðinn.

Fyrst talað var um að 20 ára nýtingarleyfi fæli í sér óöryggi og óvissu að þeim loknum þá heyrðist mér þingmaðurinn vera að vísa til þess að ekki væri allt fengið með því þar sem aflaheimildum væri úthlutað frá ári til árs og að í því væri fólgin mikil óvissa. Þannig hefur það bara verið allar götur frá því að þetta kvótakerfi var tekið upp. Það er að sjálfsögðu úthlutað frá ári til árs vegna verndunarsjónarmiða á fiskimiðum. Sú óvissa er til staðar nú þegar og hún verður ekkert meiri eftir að þessu kerfi verður komið á en hún hefur verið fram að þessu.