149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja fjórða orkupakkann á dagskrá í kvöld. Ég held að við eigum eftir að ræða hann töluvert meira, a.m.k. tel ég það nauðsynlegt.

Ég er líklega ekki að ljóstra upp um nein leyndarmál þegar ég segi að við erum að vinna í því, samhliða þessum umræðum, að afla okkur upplýsinga um hinn fjórða orkupakka, enda virðist manni augljóst að það sé ekki hægt annað en að skoða þann þriðja í samhengi við þann fjórða, nú þegar hann liggur fyrir.

Nú hefur komið fram að fjórði orkupakkinn hefur þegar verið sendur til ríkisstjórnar Noregs svo að hún geti innleitt þann pakka. Í framhaldi af þeim þriðja. Þá er væntanlega hins sama að vænta hér á landi.

Þess vegna þóttu mér ummæli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem hv. þm. Birgir Þórarinsson vísaði til, mjög sérstök, að menn ættu að skoða þessa pakka hvern fyrir sig. Þeim mun merkilegri þóttu mér þau ummæli í ljósi þess að þeir tiltölulega fáu stjórnarliðar og hv. þingmenn úr stuðningsflokkum ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli sem hafa tjáð sig eitthvað um það svo heitið geti hafa leitast við, aftur og aftur, að setja það í samhengi við fortíðina, stilla upp þriðja orkupakkanum sem óhjákvæmilegri afleiðingu af fyrsta og öðrum orkupakkanum og því sem gerst hafi síðan þá.

Þess heldur skyldi maður ætla að menn vildu ræða fjórða orkupakkann. Eða hvernig telur hv. þingmaður að umræðan verði þegar fjórði orkupakkinn kemur ef búið er að samþykkja þann þriðja á þeim forsendum að hann sé óhjákvæmileg afleiðing af fyrri innleiðingum?