149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni, herra forseti. Að sjálfsögðu hefur maður velt því fyrir sér hvort hér sé eitthvað á ferðinni sem við höfum ekki verið upplýst um. Ég rakti t.d. í ræðu minni áðan áhyggjur mínar af því að sumir þingmenn fagni því mjög að fyrirtæki á borð við Elkem á Grundartanga þurfi að greiða mun hærra raforkuverð en þeir hafa gert. Sá fögnuður gæti verið skammvinnur. Ég verð að segja það, herra forseti, vegna þess að það er alveg ljóst að fyrirtæki eins og Elkem, sem lent hefur í rekstrarerfiðleikum, þarf núna að greiða töluvert hærra raforkuverð. Það gæti farið á þann veg á endanum að fyrirtækið hætti starfsemi og þá held ég að þeir þingmenn sem fagnað hafa þessum fréttum muni ekki fagna. Fyrirtæki eins og Elkem á Grundartanga veitir fjölmörgum starfsmönnum atvinnu.

Þá veltir maður því fyrir sér, af því að hv. þingmaður nefndi það réttilega, hvort einhverjir hagsmunir séu þarna að baki. Er það hugsanlegt, hægt er að varpa því fram hér, að það sé kannski bara hugmyndafræði Vinstri grænna í þessu að styðja þetta mál núna, þvert á það sem þeir hafa áður sagt varðandi orkupakka eitt og tvö, að þeirra markmið sé kannski bara að koma stóriðjunni úr landi? Að það sé það sem hugsjónir þeirra snúast um í þessum efnum og þetta sé leið til þess, vegna þess að þarna séu möguleikar á að selja orkuna dýrara til Evrópu? En að sama skapi leggst niður atvinnustarfsemi hér á landi. Ég velti því hér upp. Þetta er eitt af þeim atriðum sem maður kemst ekki hjá að skoða.