150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir máli hvaða athugasemda er tekið tillit til, ekki vegna þess að það uppfylli einhverja hégómagirni hjá fulltrúum minni hlutans sem fengu ekki sínu framgengt, heldur vegna þess að okkur þykir þetta mál skipta máli. Þess vegna langar mig að nefna atriði sem ég nefndi ekki í tölvupósti til framsögumanns meiri hluta heldur, að ég taldi, með formlegum hætti á fundi nefndarinnar 27. apríl, 4. maí og 20. maí þegar drög að nefndaráliti lágu fyrir. Það snertir 5. gr. frumvarpsins varðandi starfsval að loknu opinberu starfi. Þar skiptir gríðarlega miklu máli að bæta við hópi starfsmanna sem eru í öllum öðrum greinum frumvarpsins, en þar eru þeir undanskildir kælingartíma til að mega sinna hagsmunavörslu. Það eru aðstoðarmenn ráðherra. Þetta er stærsti hópurinn sem þetta frumvarp fjallar um. Þetta er sá hópur sem hefur alla jafna skemmsta viðdvöl í Stjórnarráðinu og þetta er hópur sem að einum áttunda hluta fer beint í það, þeirra fyrsta starf eftir aðstoðarmannsstarfið, að starfa við hagsmunagæslu. Hvers vegna komst þetta ekki inn? Þetta snýst ekki um að sitja einn við kertaljós og semja frumvarp. Þetta snýst um grundvallaratriði í frumvarpinu.