151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun, flutning póstmála. Nefndarálitið er frá umhverfis- og samgöngunefnd og liggur fyrir á þingskjali nr. 1633 og málið er nr. 534. Nefndinni bárust umsagnir frá 11 aðilum og hún fékk til sín gesti sem fylgdu þeim umsögnum eftir og ræddu málin. Með frumvarpinu er mælt fyrir um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Fyrst í nefndarálitinu er farið yfir umfjöllun nefndarinnar.

Frumvarpið felur það í sér að verkefni póstmála flytjast til Byggðastofnunar og er þess gætt að hlutverk Byggðastofnunar verði það sama og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir tilfærsluna og að Byggðastofnun hafi allar sömu heimildir og skyldur sem lagðar voru á Póst- og fjarskiptastofnun. Til að ná þessum markmiðum var valin sú leið að leggja til breytingar á lögum um póstþjónustu sem eingöngu fela í sér tilfærslu á verkefnum póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Er frumvarpið því byggt upp með þeim hætti að ákvæði sem kveða á um verkefni, heimildir og skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru færð að mestu leyti í lög um póstþjónustu en kveðið er á um meginhlutverk Byggðastofnunar vegna póstmálefna í lögum um Byggðastofnun. Er sú leið í samræmi við lagaframkvæmd annarra ríkisstofnana sem sinna verkefnum á fleiri en einu sviði. Samhliða framlagningu þessa frumvarps var lagt fram frumvarp til laga um ný heildarlög um starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar og stofnuninni m.a. gefið nýtt heiti, Fjarskiptastofa. — Það frumvarp liggur einnig fyrir hér til afgreiðslu.

Í nefndarálitinu segir:

„Allmargir umsagnaraðilar hvetja til flutnings póstmála, frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, að því gefnu að fjármagn og mannauður til að sinna verkefninu svo vel sé verði tryggður og þar með virkt eftirlit með póstþjónustu. Aðrir umsagnaraðilar lýsa efasemdum varðandi breytinguna, m.a. vegna hættu á að sérfræðiþekking og reynsla geti glatast við flutning milli stofnana, og með þeim rökum að póstþjónusta sé ekki byggðamál eða að togstreita geti skapast milli eftirlitshlutverks og hlutverks Byggðastofnunar við eflingu byggðar.

Þá benda umsagnaraðilar á ýmis álitaefni er varða póstþjónustu í landinu og nauðsyn þess að skapa grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á póstmarkaði. Einkum hefur verið bent á vanda sem uppi er á póstmarkaði í kjölfar nýrra laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, sérstaklega hvað varðar ákvæði 2. mgr. 17. gr. laganna sem kveður á um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land.“ — Jafnt fyrir pakka sem bréf, svo að það sé útskýrt aðeins. — „Póst- og fjarskiptastofnun telur að rétt sé að endurmeta nálgun stjórnvalda á póstþjónustu og þá e.t.v. flutningsþjónustu í heild sinni á landsvísu. Um sé að ræða flókið úrlausnarefni og í því ljósi sé e.t.v. skynsamlegt að setja vinnu við heildarendurskoðun málaflokksins í farveg með það að markmiði að útfæra nýja nálgun á póst- og flutningsþjónustu á landsvísu þar sem hagsmunir allra landsmanna verði hafðir að leiðarljósi. Þá bendir Samkeppniseftirlitið á að finna þurfi aðrar leiðir til þess að tryggja hagstæða verðlagningu á póstþjónustu í dreifðum byggðum, t.d. með vel útfærðri flutningsjöfnun.“

Og áfram segir:

„Nefndin telur verkefni póstmála geta fallið að verkefnum Byggðastofnunar og styður flutning póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, en tekur undir mikilvægi þess að tryggja fjármagn og mannauð til að sinna verkefninu og þétt samráð við yfirfærslu þekkingar milli stofnana.

Þá bendir nefndin á að markmið frumvarpsins er eingöngu að færa gildandi lagaheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar á sviði póstmála til Byggðastofnunar og því er ekki verið að breyta gildandi ákvæðum laga um eftirlit með póstmálum frá því sem nú er í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Nefndin telur ekki tilefni til breytingar á umræddum reglum á þessu stigi, þrátt fyrir nokkrar ábendingar umsagnaraðila.“

Þetta þýðir með öðrum orðum að nefndin leggur ekki til neinar efnislegar breytingar varðandi meginefni frumvarpsins en leggur hins vegar til tvær breytingartillögur sem tengjast póstmálum og verður nánar gerð grein fyrir hér, auk þess að leggja til nokkrar tæknilegar breytingar og orðalagsbreytingar.

Fyrri breytingartillagan fjallar um að farið verði í vinnu á greiningu á tækifærum til úrbóta á póstmarkaði:

„Nefndin telur að bæta þurfi grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á póstmarkaði ásamt því að tryggja aðgengi landsmanna að póstþjónustu óháð búsetu. Með vísan til þessa leggur nefndin til að hafin verði vinna við að greina möguleg tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. svonefndan alþjónustukostnað, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og samkeppnissjónarmiða. Í því sambandi er vísað til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1/2021, þar sem fram kemur m.a. að stofnunin telji umtalsverð tækifæri til að lækka þennan kostnað.“

Þá er hér vísað til nefndarálits sem umhverfis- og samgöngunefnd afgreiddi þegar frumvarp til laga um póstþjónustu var afgreitt úr nefndinni árið 2019 og ætla ég ekki að rekja það allt en fara í tillögu nefndarinnar:

„Nefndin leggur því til að ráðherra, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra, skipi starfshóp sem meti hvernig best megi tryggja að náð verði markmiði 1. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, sem er „að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu“. Starfshópurinn skuli m.a. hafa hliðsjón af tækninýjungum, samkeppnissjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Markmið með vinnu starfshópsins verði að:

greina tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. svonefndan alþjónustukostnað,

útfæra tillögur sem tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustu og greiði fyrir hana viðunandi verð, þ.m.t. mögulega flutningsjöfnun,

tryggja heilbrigða samkeppni á svæðum þar sem ekki er markaðsbrestur og greina og bregðast við mögulegri skörun milli laga um póstþjónustu og laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.“

Nefndin tiltekur svo áherslur sínar í þeirri vinnu:

„Í vinnunni er mikilvægt að litið verði til sjónarmiða neytenda, atvinnurekenda og ólíkra byggða og eðlilegt að fulltrúar ólíkra sjónarmiða eigi sæti í starfshópnum auk fagaðila á sviði póst- og fjármála. Nefndin vekur einnig athygli á að nauðsynlegt getur verið að leita sjónarmiða frá ólíkum byggðarlögum í öllum landshlutum.

Tillögur starfshópsins skulu kostnaðarmetnar og gerð skal grein fyrir áhrifum þeirra á póstmarkaðinn í heild sinni og hagræn áhrif í samkeppnislegu- og byggðalegu tilliti. Stefnt skal að því að tillögur og greinargerð starfshópsins liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2021.“

Ég ætla líka að lesa upp tillöguna eins og hún kemur fyrir í breytingartillögunum en þá leiðir þessi umfjöllun til þess að nefndin leggur til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

„Ráðherra, í samstarfi við ráðherra sem fer með fjármál og efnahagsmál, skal hið fyrsta skipa þverfaglegan starfshóp til að meta hvernig best megi ná markmiðum 1. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af tækninýjungum, samkeppnissjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Í starfshópinn verði, auk fulltrúa ráðherra, skipaðir fagaðilar og fulltrúar sjónarmiða neytenda, atvinnurekenda og ólíkra byggða. Tillögur hópsins skulu settar fram í skýrslu, ásamt kostnaðarmati, og gerð skal grein fyrir áhrifum þeirra á póstmarkaðinn í heild sinni og hagrænum áhrifum í samkeppnislegu og byggðalegu tilliti. Skýrslan skal liggja fyrir eigi síðar en 1. október 2021.“

Og svo aftur aðeins inn í nefndarálitið:

„Nefndin leggur áherslu á að horfa þarf til tækifæra sem felast í því að gera breytingar á þjónustunni fyrir allt landið sem leitt geta til aukinnar hagræðingar. Þar má t.d. nefna aukna sjálfsafgreiðslu, rafrænar lausnir, aukna samþættingu póstþjónustu og annars aksturs í dreifbýli, svo sem með auknum heimildum til verktaka hjá Íslandspósti ohf. til að taka að sér önnur verkefni samhliða póstþjónustu, og einnig möguleikann á að semja við verktaka sem nú þegar sinna annarri þjónustu í dreifbýli að taka að sér póstþjónustu.“

Þá held ég að búið sé að draga fram flest það sem snýr að þessum greiningum og tækifærum til úrbóta á póstmarkaði. Þá er hin breytingartillaga nefndarinnar þar sem er vísað til þess vanda sem upp kom á póstmarkaði varðandi kvöðina um að flutningur pakka innan 10 kílóa í alþjónustuskyldu skyldi vera á sama verði um allt land. Ég gerði grein fyrir þeim vanda áðan þannig að ég fer þá bara í tillögu nefndarinnar:

„Nefndin leggur því til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að einungis verði kveðið á um að smásölugjaldskrá fyrir bréf allt að 50 g innan alþjónustu skuli vera sú sama um land allt. Er það í samræmi við ákvæði 2. mgr. 17. gr. frumvarps til laga um póstþjónustu eins það var áður en það tók breytingum í meðförum þingsins.

Nefndin leggur áherslu á að framangreind breyting hefur ekki áhrif á ákvæði 1. mgr. 17. gr. sem kveður á um að gjöld fyrir alþjónustu skuli vera viðráðanleg fyrir notendur þannig að þeir geti notfært sér þjónustuna né heldur ákvæði 3. mgr. 17. gr. um að hún skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þá leggur nefndin áherslu á að liður í vinnu starfshópsins við greiningu á tækifærum til úrbóta á póstmarkaði verður að finna leiðir til að jafna póstkostnað á landsvísu.“

Eins og áður sagði eru lagðar til breytingar tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali nr. 1634.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Bergþór Ólason formaður, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, með fyrirvara, Hanna Katrín Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Vilhjálmur Árnason. Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Þá skrifar Karl Gauti Hjaltason undir með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu, eins og Guðjón S. Brjánsson.

Þá hef ég gert grein fyrir nefndarálitinu og breytingartillögum nefndarinnar en eftir að málið var afgreitt úr nefnd fékk nefndin ábendingar um að tímafrestir í seinni breytingartillögunni, sem ég fór yfir áðan, væru kannski ekki nægjanlegir. Breytingartillagan hljóðar þannig: „Ákvæði 4. gr. laga þessara skal vera komið til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2021.“

Við í umhverfis- og samgöngunefnd töldum okkur hafa farið vel yfir að þessi tími væri nægjanlegur en eftir að tillagan birtist á vef þingsins fengum við ábendingar um að svo væri ekki. Það er töluvert ferli að breyta gjaldskrá hjá Íslandspósti. Þar þurfa að koma að stjórn, starfsmenn og Póst- og fjarskiptastofnun eða Fjarskiptastofa. Með leyfi forseta langar mig að gera jafnframt grein fyrir breytingartillögu við málið sem liggur fyrir á þskj. 1679. Sú breytingartillaga er frá framsögumanni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, og þar segir: „Í stað orðanna „1. september 2021“ í 8. tölulið komi: 1. nóvember 2021.“

Eftir að hafa gert grein fyrir þessum tillögum tek ég fram að ég álít að þetta mál sé mikilvægt. Ég tel að sú nálgun að fela Byggðastofnun að fara með póstmál og eftirlit póstmála geti tryggt góða þjónustu í dreifðum byggðum og eðlilegra samkeppnisumhverfi í póstþjónustu heldur en við getum búið við á þeim svæðum þar sem ekki er markaðsbrestur. Hægt er að bæta þjónustuna í stórum hluta af dreifbýli landsins.