131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:41]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki betur en það hafi verið algjör samstaða um það í nefndinni í fyrra að flytja ekki tillögur sem þrýstingur var á um að yrðu fluttar um úrræði af því tagi sem nú eru að koma fram. Þess vegna taldi ég ástæðu til þess að blanda mér í umræðuna af því að ég tel að menn þurfi að fara mjög vandlega yfir það, menn þurfa að vera tilbúnir að standa mjög fast að þeim niðurstöðum sem verða um það sem hér um ræðir því að þetta eru mjög mikilsverð mál.

Ég minni aftur á þá umræðu sem fram fór um aðgang að persónuupplýsingum í kringum málefni flugmanna þegar verið var að rannsaka flugslys. Þar var eingöngu verið að tala um persónuleg samskipti manna sem höfðu verið tekin upp á þar til gerð tæki sem átti að nýta eingöngu í öryggisskyni til þess að koma í veg fyrir slys í framtíðinni. Það ætti að vera ástæða til þess að menn gætu gengið býsna langt þegar um það ræðir, en annað virðist vaka fyrir mönnum nú þegar menn eru tilbúnir til þess að ganga í að safna öllum upplýsingum sem fara um hinar ýmsu samskiptaleiðir nets og síma í landinu og geyma í heilt ár til þess að geta flett því upp hvenær sem mönnum þóknast.

Það kann vel að vera að það verði niðurstaðan en ég vil ekki að það gerist öðruvísi en að menn skoði sig vel um.