131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:51]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra svaraði spurningu minni svo að það væri sennilega þróun sem hefði gert þetta að verkum. Ég held hins vegar að það hafi ekkert átt sér stað í þróun í þessum efnum síðasta ár eða tvö sem geri það að verkum að það sé akkúrat hægt að gera þetta núna. Ég held að það hafi eingöngu verið viljaleysi ríkisstjórnar að hafa ekki gert þetta fyrr. Ég tók í ræðu minni dæmi um íbúa í því litla fallega byggðarlagi sem heitir Hrísey sem tóku sig sjálfir til og borguðu 2–2,5 millj. kr. til þess að koma sér í háhraðatengingar vegna þess að þeir vildu ekki vera annars flokks borgarar. Hríseyingar vildu komast í þessa þjónustu, m.a. út af fjarnámi og öðru, og þeir þurftu að borga þetta úr eigin vasa. Aðrir Íslendingar, hvort sem eru í Stykkishólmi, á Siglufirði eða í Bolungarvík, fengu þetta beint frá þeim aðilum sem þar voru. Nú á hins vegar að setja upp gulrót og bjóða þetta út sem er ágætt.

Ég hef aðra spurningu til hæstv. samgönguráðherra sem ég vona að hann geti svarað mjög skýrt í sínu seinna andsvari: Er það ákvörðun og er hægt að treysta því að af þeim peningum sem koma inn vegna Símans verði tekin frá upphæð — hér hefur verið nefnd talan 1.050 milljónir plús vegna þess að menn vita ekki hvað þarf að borga með háhraðatengingunum — og stofnaður sérstakur sjóður um það sem verður tekið út úr til að fara í þessa framkvæmd? Eða þurfum við að treysta á fjárveitingar Alþingis með fjárlögum hvert og eitt ár? Þetta er mikið atriði og kemur því verulega við hvernig muni vinnast í framtíðinni. Það þarf hreinlega að taka fé frá og það má ekki verða nein barátta viðkomandi samgönguráðherra við hæstv. fjármálaráðherra til að fá einhverjar krónur til að uppfylla það metnaðarfulla plagg sem hér er. Ég lýsi stuðningi við það — ef kjötið fylgir með á beininu.