132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns hef ég ekki tölur á takteinum um það. Það er vegna þess að skatttekjur af færslum eins og hér er um að ræða hafa ekki verið metnar sérstaklega og eru ekki sérstaklega tilgreindar í tekjuáætlunum. Það er því ekki um bein viðmið að ræða til að geta svarað þeirri spurningu.

Það sem skiptir hins vegar máli, eins og kom reyndar fram í spurningunni, er að ekki er um það að ræða að verið sé að fella þessa skattlagningu niður heldur er verið að fresta henni og dreifa henni á fleiri rekstrarár. Eins og kom fram í máli mínu tengist þetta mjög breytingum á gengi og breytingar á gengi eru þess eðlis að mjög erfitt er að sjá þær fyrir og sérstaklega þegar svo er í pottinn búið eins og ég greindi frá áðan. Þess vegna hef ég ekki svör við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar fyrir mig.