132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:26]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þuríður Backman spyr fyrst og fremst um afstöðu mína til tilvísunarkerfis. Við vitum að ekki eru mörg ár síðan hart var tekist á um tilvísunarkerfið í íslensku samfélagi og því var hafnað. Þá var aðstaðan kannski öðru fremur sú að það var mjög vaxandi kostnaður vegna sérfræðiþekkingar og mönnum var í mun að spyrna gegn þeim kostnaði og þeirri kostnaðaraukningu.

Hins vegar hefur á síðastliðnum árum tekist að halda nokkuð vel í horfinu og þessi kostnaður hefur ekki vaxið að sama skapi og hann gerði mörg ár þar á undan. Það voru tiltekin rök fyrir því að koma á tilvísunarkerfi, að stýra mikilli kostnaðaraukningu vegna sérfræðilækna.

Nú liggur fyrir sú afstaða ráðherra og þeirrar títtnefndu nefndar að styrkja eigi Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, m.a. sérfræðiþjónustuna og göngu- og dagdeildarstarfsemina á þessum sjúkrahúsum. Þá skapast líka ákveðið jafnvægi milli sérfræðiþjónustu, ferliverka og annars sem veitt er á spítalanum og þess sem er veitt úti í bæ, við erum því að ná tilteknu jafnvægi. Það sem við getum svo gert til viðbótar og betur er að styrkja heilsugæsluna enn frekar, auðvelda aðkomu sjúklinga að heilsugæslunni og efla heilsugæsluna m.a. með fleiri fagstéttum, ekki bara læknum og hjúkrunarfræðingum heldur sálfræðingum, þroskaþjálfum o.s.frv. þannig að það sé eðlilegt fyrsta skref í heilbrigðisþjónustunni, fyrsta stopp fyrir sjúklinga. Þá komum við líka í veg fyrir að fólk sé að leita oflækninga, að fólk sé að leita að of háu stigi sem fyrsta skrefi þegar það leitar til heilbrigðisþjónustunnar. Ég held að það sé miklu vænlegra til lengri tíma litið heldur en fara af stað með einhvers konar tilvísunarkerfi, að heilsugæslan kalli fólk til sín því að það er eðlilegt fyrsta skref í staðinn fyrir að hún taki að sér að beina fólki annað.