135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það alveg skýrt fram að mér finnst mikilvægt að heilbrigðisþjónustan á Íslandi — sama á hvaða stigi hún er og sama hvar hún er veitt — ástundi góða sjúkraskráningu og góða skráningu á þeim hlutum sem nauðsynlegir eru. Þar af leiðandi er gott að hafa kostnaðargreiningu ef við horfum til þess að fjármagna þá starfsemi sem við erum með í dag svo að við sveltum ekki heilbrigðisstofnanir eins og við höfum gert. Við getum séð að öldrunarstofnanirnar berjast margar hverjar í bökkum vegna þess að þær hafa ekki fengið rétt mat á þeirri þjónustu sem þær veita.

Ég er ekki þar með að segja að einkavæða eða setja eigi þá þjónustu út í einkarekstur. Það má kostnaðargreina og greiða rétt af fjárlögum til viðkomandi stofnana og sjúkraskráningar eiga alls staðar að vera réttar. En hægt er að nota slíka kostnaðargreiningu þegar farið er af stað með hana til að auðvelda útboð, útvistun og koma þjónustunni í einkarekstur því að þá er búið að setja verðmiða á þjónustuna og þá er það miklu auðveldara.

Það er erfitt fyrir almenning að sjá þetta en öll þau litlu skref sem við erum að taka — við getum notað aðferðirnar á mismunandi hátt. Ég og flokkur minn viljum standa vörð um góða skráningu en við viljum standa vörð um að þjónustan verði áfram innan félagslega heilbrigðiskerfisins og að við förum ekki að eyðileggja þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað hér undanfarin mörg ár.