131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:11]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Sú sterka fjöldahreyfing sem nú hefur myndast undir forustu Agnesar Bragadóttur um kaup almennings á hlut í Símanum er ekki síst uppreisn fólks gegn því að fólki finnst að fáeinir útvaldir fjárfestar og fyrirtækjasamsteypur séu að sölsa undir sig eignir almennings á útsöluverði. Gjarnan er nefnt að nokkrar stórar viðskiptasamsteypur hafi hagnast um marga tugi milljarða á ári á kaupum á viðskiptabönkunum og það stendur auðvitað líka í þjóðinni hvernig fáir kvótakóngar hafa á umliðnum árum og áratugum eignast fiskimiðin. Þetta er undirrótin að herópi sem nú kemur fram hjá almenningi sem endurspeglast í þeirri fjöldahreyfingu almennings sem vill hafa möguleika á að kaupa Símann.

Í þeim skilmálum sem settir hafa verið fram vegna kaupa á Símanum, sem er stærsta einstaka einkavæðingin sem ráðist hefur verið í, hefur svo verið búið um hnútana að einungis stórir fjárfestar og fyrirtækjasamsteypur ættu möguleika á þeim kaupum. Þeim sem hreppa þetta hnoss er síðan ætlað að vera nokkurs konar heildsalar að góssinu til almennings. Fráleitt er að almenningur fái fyrst að kaupa hlutabréf á árinu 2007 þannig að viðskiptasamsteypurnar og stórir fjármagnseigendur geti grætt á almenningi. Fólki er nóg boðið og það er skýringin á þeirri fjöldahreyfingu sem nú hefur myndast sem vill komast strax að sölu Símans. Fólk vill ekki þurfa að bíða til ársloka 2007 og að verulegur hluti af því kaupverði sem almenningi þá býðst renni í vasa stóru fjármagnseigendanna.

Það er mín skoðun að ef fjöldahreyfingunni tekst ekki að safna tilskildum hlutafjárloforðum eigi stjórnvöld að breyta skilmálum sínum og heimila almenningi strax að kaupa hlutabréf. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það komi til greina í ljósi þess áhuga sem almenningur hefur sýnt á kaupum í hlutabréfum í Landssíma Íslands að breyta skilmálum fyrir söluna þannig að almenningur eigi strax kost á að kaupa hlutabréf. Sömuleiðis vil ég spyrja hvers vegna ekki hafi verið gert ráð fyrir því að almenningur fengi strax rétt á að kaupa hlutabréfin og hver sé skýringin á því að þeir fjárfestar sem eignast fyrirtækin þurfi ekki að selja til almennings fyrr en í árslok 2007.

Það er ekki bara hægt að slá því fram, eins og forsætisráðherra hefur gert, að það rýri verðmæti Símans um 20–25% ef almenningur fær strax að fjárfesta í Símanum. Þessi prósentutala hefur m.a. verið dregin í efa af forsvarsmönnum fjöldahreyfingarinnar og ekki er hægt að lesa um forsenduna eða rökin fyrir þessu í skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu vegna þessarar sölu vegna þess að þar er lítið minnst á sölu hlutabréfanna til almennings eða hvaða áhrif hún hafi.

Hæstv. forsætisráðherra skuldar líka skýringu á því af hverju þessi leynd hvíli yfir þessari skýrslu fyrirtækisins Morgan Stanley og hvort hún verði gerð opinber. Það er alveg nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þingmenn fái tækifæri til þess að fara yfir þessa skýrslu og þau rök sem þar eru sett fram, m.a. það sem snýr þar (Forseti hringir.) að hlutabréfakaupum almennings.