131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Atvinnumál í Mývatnssveit.

315. mál
[15:01]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram og þær upplýsingar um nýsköpun í atvinnumálum í Mývatnssveit sem hér hefur verið fjallað um eins og með þá verksmiðju sem á að byggja vörubretti úr endurunnum pappír. Þeirri hugmynd og þeim mönnum sem ætla að byggja það upp fylgja góðar óskir frá mér um að vel takist til. Það er gott ef kannski 20–25 manns fá vinnu við það þegar seinni áfanga verður lokið.

Ég held að ég hafi heyrt rétt, og tek þá undir og fagna því ef ég heyrði rétt, að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að Nýsköpunarsjóður ætti að kaupa 200 millj. kr. hlutafé í því fyrirtæki sem verður stofnað utan um þessa starfsemi. Finnst mér góður bragur þar á en tek auðvitað undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var að tala um, ég hefði viljað sjá það víða um landið þar sem atvinnumál eru í uppnámi, hvort sem það er út af því að verksmiðjan sem ríkið átti, eins og hér, eða fiskvinnslufyrirtæki eru að leggja upp laupana eða draga saman seglin. Ríkið ber náttúrlega meiri ábyrgð á þeirri verksmiðju sem var í eigu þess.

Ég fagna því sem hér hefur komið fram og held að það sé mjög mikilvægt að iðnaðarráðuneytið og hæstv. ríkisstjórn fylgist betur með hinum litlu byggðarlögum. Ég tek skýrt fram og segi að þetta er í raun og veru módel sem við eigum að nota og eigum ekki að vera hrædd við.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að hún á eftir að koma í seinni ræðu: Kemur til greina af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra að við skoðum það að kaupa hið gjaldþrota fyrirtæki úti í Noregi sem var að vinna að kísilduftsverksmiðjunni, (Forseti hringir.) þær viðskiptahugmyndir og framleiðsluferla sem er búið að þróa þar til að setja m.a. upp (Forseti hringir.) hér á landi?