132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá höfum við það. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins hefur efasemdir um að eitthvert vit sé í því að gera flugvöll á Lönguskerjum. Ég verð að lýsa því yfir að ég er alveg sammála því mati. Ég tel að hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum sé algjör fásinna eftir að hafa skoðað þá hugmynd og rætt hana, bæði við félaga mína í Frjálslynda flokknum og aðra sem hafa vit á þessum málum, og að það sé alveg út úr kortinu að gerður verði nýr flugvöllur þarna úti á miðjum firði.

Hins vegar þætti mér áhugavert að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann er þingmaður Suðurkjördæmis, hvort hann telji að það þjóni hagsmunum íbúa Suðurkjördæmis, og þá á ég við íbúa á því svæði sem við köllum fyrir austan fjall, þ.e. á Suðurlandsundirlendinu allt austur á Hornafjörð og líka íbúa í Vestmannaeyjum, að flugvöllurinn og innanlandsflugið verði flutt úr Vatnsmýrinni og farið með það til Keflavíkur. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni að eini flokkurinn á Íslandi í dag sem ætlar að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni er Frjálslyndi flokkurinn. Við skömmumst okkar ekkert fyrir þá afstöðu. Við höfum skoðað þessi mál mjög gaumgæfilega og það er alveg sama hvernig maður veltir þeim fyrir sér, maður verður fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni landsbyggðarinnar en einnig um hagsmuni höfuðborgarbúa sjálfra og maður kemst að þeirri niðurstöðu að Vatnsmýrin sé eini skynsamlegi kosturinn.

Því miður eru aðrir stjórnmálaflokkar ekki alveg sammála okkur í þessu. Hins vegar bendi ég á að það eru ansi þokukenndar hugmyndir sem þeir hafa fram að færa varðandi valkost í staðinn fyrir Vatnsmýrina. Kannski má segja að skýrustu hugmyndirnar séu þær að fara með flugið til Keflavíkur en þar fyrir utan eru hugmyndirnar ansi mikið á reiki verð ég að segja.