140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo margt sem er á skjön hjá ríkisstjórninni miðað við það sem rætt er um í hv. fjárlaganefnd. Til að mynda bara það eitt að fara í fjárfestingaráætlanir mörg ár fram í tímann án þess að bera það undir þingið eða kynna það heldur er það bara kynnt í fjölmiðlum á fjölmiðlafundi. Það er mjög sérkennilegt.

Hv. þingmaður kom inn á umsagnir frá sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Hv. þingmaður nefndi byggðaröskun, sem ég kom inn á í ræðunni sem ég hélt hér á undan, á sunnanverðum Vestfjörðum og víðar. Það er athyglisvert að lesa umsagnirnar þaðan þar sem kemur fram að veiðigjaldið og upphæð þess sé í sumum tilfellum hærri en heildartekjur viðkomandi sveitarfélaga.

Svo koma hv. þingmenn hingað upp og segja: Við getum farið og tekið 20 milljarða úr sjávarbyggðunum og það gerist ekki neitt, það verður allt í fína lagi, það hefur engin áhrif, akkúrat engin áhrif.

Það er náttúrlega brjálæði að halda slíkri vitleysu fram. Auðvitað hefur það gríðarleg áhrif þegar menn fara í sjávarbyggðirnar og taka þennan skatt af þeim. En hæstv. ríkisstjórn sést aldrei fyrir þegar kemur að því að auka skattheimtu og skattpíningu og líka, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, ofsóknarbrjálæðið gagnvart grunnþjónustunni á landsbyggðinni. Þar er verið að skera miskunnarlaust niður, alveg sama hvort það er heilbrigðisþjónusta, löggæsla eða hvað það er, alls staðar er skorið niður.

Ég ætla að nota lokaorðin í þessu andsvari til að segja að reynsla landsbyggðarmanna af því að færa skatta og tekjur til Reykjavíkur er ekki góð. Svo eiga (Forseti hringir.) stjórnmálamenn á hverjum tíma að úthluta þeim til baka. Það eru oft mikil afföll í því (Forseti hringir.) og allt of mikil.