145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert viss um að hún hefði fengið lengri umræðu. Ákvæði af þessu tagi, við þær aðstæður sem um er að ræða, er nauðsynlegt til að hægt sé að sinna eftirliti. Auðvitað er það þannig að þegar kemur að persónuvernd í frumvörpum togast reglulega á matið á því hvað er nauðsynlegt eftirlit og hvaða upplýsingar þarf til að geta sinnt nauðsynlegu eftirliti, og síðan persónuverndarsjónarmið. Hér er um að ræða mjög sérstakt mál, mjög sérhæft mál, þar sem verulegir hagsmunir eru undir, verulegir hagsmunir af því að vel til takist, hagsmunir af því að ekki sé hægt að vera í einhvers konar sniðgöngu eða undanskotum eða einhvers konar peningaþvætti eða einhverju öðru. Eftirlitið er mjög nauðsynlegt við þessar aðgerðir sem munu auðvitað síðan fjara út. En af því að þetta er svona sérstakt þá hef ég ekki áhyggjur af ákvæðinu. Ég er ekki viss um að það hefði gefið mikið tilefni til langrar umræðu eða skoðunar, svo því sé svarað.