150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

breyttar reglur um móttöku ferðamanna.

[15:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem gat þó ekki svarað öllum spurningum. Mig langar að ítreka spurninguna varðandi sýnatöku: Geta ferðamenn og Íslendingar í rauninni pantað sér tíma hjá Íslenskri erfðagreiningu og fengið þar ókeypis skimun áfram eins og verið hefur, í stað þess að þurfa að borga 15.000 kr. gjald við landamærin? Er það möguleiki?

Mig langar að spyrja út í ferðatakmarkanir hjá því fólki sem bíður niðurstöðu. Verða einhverjar takmarkanir í almenningssamgöngum, eins og þekkist víða um Evrópu? Má fólk sem bíður niðurstöðu fara upp í rútu? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að rekja ferðir þeirra eða annarra sem bíða niðurstöðu?

Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag að sýni sem tekin yrðu yrðu ekki geymd heldur yrði þeim eytt en upplýsingar skráðar. Við höfum ekki heyrt neitt viðlíka varðandi þau sýni sem tekin hafa verið nú þegar. Það væri gott að fá svar hæstv. ráðherra um þau sýni sem nú þegar hafa verið tekin. Er búið að eyða þeim eða eru þau geymd?