132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:51]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn heyrir maður þá kenningu, sem ég las út úr orðum hv. þm. Halldórs Blöndals, að svo skuli böl bæta að benda á annað verra. Um það snýst ekki eðlilegur, skynsamlegur málflutningur. Ég hef að vísu heyrt þessa lögskýringu áður í menntamálanefnd, skýringu á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er skýrt þannig í frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. að það eigi að skerða starfsmenn þeirra með sama hætti og skert var hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Matvælastofnun. Lögskýringin á jafnræðisreglunni, hin nýja, sem ég hef reyndar aldrei heyrt áður, er sú að allir eigi að hafa það jafnskítt. Ef einn hefur það skítt verði að jafna það þannig að allir séu í sama skítnum.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta orða sinna hér.)