149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hvað skýri þetta hringl með dagskrána hérna. Við vorum að ræða heilbrigðisstefnu áðan, henni er frestað og einhver mál tekin fram yfir. Nú vorum við að ræða umferðarlög, maður setur sig á mælendaskrá og þá er því frestað og heilbrigðisstefnan tekin aftur á dagskrá. Eru gerðar einhverjar ráðstafanir til að þeim þingmönnum sem voru á mælendaskrá, t.d. um heilbrigðisstefnu, sé gert viðvart að dagskráin sé að breytast, að þeir hafi tíma til að koma sér í hús eða taka þátt í umræðunni? Auðvitað er það þannig að þingmenn eiga að vera tilbúnir til þess að ræða málin, við þekkjum það alveg, en það er allur gangur á því, eins og allir vita. En ég velti fyrir mér hvort hæstv. forseti hafi gert einhverjar ráðstafanir til að þeir sem ætla að taka þátt í heilbrigðisstefnuumræðunni hafi tök á því þá að gera sig klára í það vegna þess að þetta hringl með dagskrána er algjörlega óþolandi.