149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Mér þykir hlýða að fara nokkrum orðum um þetta mál í vonandi ekki allt of löngu máli.

Ég vil byrja á því að vísa til álits minni hluta velferðarnefndar sem er undirritað af hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þar sem hún dregur fram ýmsar mikilvægar ábendingar og athugasemdir og um leið stefnu Miðflokksins í þessum þýðingarmikla málaflokki.

Þannig stendur á að það liggja fyrir sem gögn í málinu mjög góðar umsagnir, margar hverjar. Ég hyggst drepa niður á örfáum stöðum. Það er ekki færi á því að vísa til þeirra allra svo sem vert væri.

Mig langar að byrja á því að segja nokkur orð um umsögn Læknafélags Íslands en fyrir liggur bréf frá Læknafélaginu, annars vegar til nefndasviðs Alþingis frá því í febrúar 2019 þar sem rakið er að Læknafélagið hafi skilað ítarlegum athugasemdum og ábendingum við drög að heilbrigðisstefnu eins og þau birtust í samráðsgáttinni. Um leið er sagt að félagið fái ekki séð að nokkuð af athugasemdum eða ábendingum þess hafi skilað sér í stefnumótuninni sjálfa, þótt einhver atriði virðist hafa ratað í greinargerðina.

Það er auðvitað mjög mikilvægt, frú forseti, að í svona máli sé vandlega gætt að samráði. Það er einmitt vikið að því í bréfi Læknafélags Íslands til hæstv. heilbrigðisráðherra sem liggur fyrir sem gagn í málinu. Það er frá 18. desember sl. Þar segir, með leyfi forseta:

„LÍ telur að æskilegt hefði verið að hafa viðameira og ítarlegra samráð við hagsmunaaðila við undirbúning þessarar stefnumótunar.“

Þá segir enn fremur að Læknafélagið vilji koma á framfæri:

„að í heilbrigðisstefnuna vantar ákvæði um að öll þjónusta innan heilbrigðiskerfisins sem greidd er af opinberum aðilum skuli byggjast á gagnreyndum fræðum. Umönnun sem veitt er án þess að til hafi komið sjúkdómsgreining og stofnað hafi verið til viðeigandi meðferðar af hálfu læknis er ógnun við gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu. Einnig vantar í stefnuna umfjöllun um velferð og starfsþróun mannauðs heilbrigðiskerfisins. Hvergi er minnst á úrbætur er varða vinnutilhögun, sveigjanleika í starfi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna, né að stuðlað skuli að mótvægisaðgerðum gegn álagsþáttum í starfi og vinnuumhverfi. Alveg vantar ákvæði um lágmarksöryggisviðmið í mönnun starfseininga innan heilbrigðiskerfisins. Ekkert markmið er um öryggi starfsmanna. Endurskoðunar á stjórnskipulagi heilbrigðisstofnana er hvergi getið.“

Þetta eru mikilvæg atriði og það er ekki allt búið í þessu bréfi Læknafélagsins því að þar segir:

„Loks er í stefnunni ekkert ákvæði um réttindi sjúklinga. Hvergi er vikið að umboðsmanni sjúklinga og ekki er fjallað um sjúklingasamtök. LÍ leggur til að í stefnuna komi markmið um að 2030 verði búið að stofna heildarsjúklingasamtök sem hafi tryggan faglegan og rekstrarlegan grunn.“

Þá segir enn fremur:

„LÍ varar við þeim hugmyndum í heilbrigðisstefnunni að notendur heilbrigðisþjónustunnar skulu sviptir réttindum til að fá að velja sér þá þjónustu sem þeir telja sig þurfa og þjónustuaðila til að veita hana. LÍ er ósammála þeim uppgjafartóni sem er í heilbrigðisstefnunni gagnvart því verkefni að manna grunnheilbrigðisþjónustu á Íandsbyggðinni og að fullnægjandi geti talist að í hennar stað komi fjarheilbrigðisþjónusta.“

Þá vil ég í sem stystu máli nefna að umsögninni fylgja mjög ítarlegar athugasemdir í greinargerð af hálfu félagsins. Liggur þetta fyrir með gögnum málsins og er hin fróðlegasta lesning og mjög gagnleg. Ég vænti þess að hún verði höfð til hliðsjónar og skipi veigamikinn þátt þegar kemur að endurskoðun heilbrigðisstefnunnar.

Þá þykir mér rétt, frú forseti, að vísa stuttlega í álit Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar er bent á að forvarnir og lýðheilsu vanti í þingsályktunartillöguna. Að mati félagsins er nauðsynlegt að setja fram stefnu um forvarnir og lýðheilsu. Þar kemur enn fremur fram að ekki sé minnst sérstaklega á endurhæfingu í þingsályktunartillögunni og bent um leið á að endurhæfing sé sífellt stækkandi þáttur heilbrigðisþjónustunnar. Því telur félagið mikilvægt að koma þeim þætti inn í heilbrigðisstefnu.

Sömuleiðis segir í umsögninni að ekki sé minnst einu orði á hjúkrunarheimili eða hjúkrun aldraðra, þó að ljóst sé að aldraðir séu vaxandi hópur sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda næsta áratuginn.

Loks vil ég víkja að eftirfarandi í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, með leyfi forseta:

„Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill leggja sérstaka áherslu á mikilvægi rannsókna og vísindastarfsemi til að þróa hjúkrunarmeðferð og því undirstrika mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar og sérfræðingar í hjúkrun fái tækifæri til að starfa við vísindarannsóknir og/eða gæðaverkefni innan hjúkrunarfræðinnar í tiltekinn tíma á ári. Hjúkrunarfræðingar fái einnig greiðari aðgang að styrkjum til vísindarannsókna sem og aðgang að gögnum og gagnagrunnum á heilbrigðissviði. Í því sambandi er vert að minna á frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (gjaldtöku vísindasiðanefndar) en þar er verið að leggja til aukinn kostnað við vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Það er aðgerð sem ekki mun auka á vísindastarf innan heilbrigðisþjónustunnar heldur þvert á móti.“

Það eru fleiri gagnlegar ábendingar í umsögninni sem ekki gefst tími til að rekja nánar.

Ég vil loks víkja að umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þar segir m.a., með leyfi forseta, þar sem vikið er að hjúkrunarheimilum og endurhæfingarstofnunum og hvernig þær stofnanir eigi að virka sem hluti af heilbrigðiskerfinu:

„Eftir stendur að grundvallarspumingum um stefnu stjórnvalda í þessum málaflokkum er ósvarað. Hver er stefna stjórnvalda t.d. varðandi hlutverk og rekstur hjúkrunarheimila í framtíðinni? Er það ætlun stjómvalda að hjúkrunarheimili sinni líknandi meðferð og umfangsmikilli hjúkrun í auknum mæli, eins og þróunin hefur verið undanfarin ár? Eða er ætlunin að hjúkrunarheimilin sendi heimilismenn oftar á spítala, eins og gert er t.d. í Danmörku? Hvaða leið er farin í þessum efnum hefur áhrif á fagmönnun inni á hjúkrunarheimilum og það fjármagn sem greitt verður til heimilanna. Það skiptir einnig máli við byggingu og skipulag nýs Landspítala, enda verður að gera ráð fyrir fleiri legurýmum á spítalanum ef þjónustustig hjúkrunarheimila á að lækka frá því sem það hefur verið undanfarin ár. Þá þarf að ákveða hvort veita eigi sömu þjónustu á öllum hjúkrunarheimilum landsins, án tillits til stærðar og staðsetningar. Eiga almenn hjúkrunarrými að þjónusta alla langveika einstaklinga eða vera öldrunarstofnanir með sérhæfingu í öldrunarlækningum?“

Já, frú forseti. Hér er sannarlega hreyft við mjög mikilvægum málum. Áfram segir:

„Þá er heldur ekki rætt í heilbrigðisstefnunni um sýn stjómvalda á hlutverk og rekstur endurhæfingarstofnana. Hvert á hlutverk slíkra stofnana að vera til framtíðar litið? Hvernig líta stjómvöld á starfsemi þeirra sem hluta af heilbrigðiskerfinu?“

Og að síðustu þetta úr umsögninni:

„Heildstæð heilbrigðisstefna verður ekki fullgerð nema grundvallarsýn stjórnvalda á hlutverk og þjónustustig inni á þessum stofnunum komi fram.“

Frú forseti. Að lokum vil ég víkja að tilgreindu fjárhagslegu málefni, sem stundum hefur verið nefnt hér af minni hálfu og fleiri hv. þingmanna, sem er það að alveg nauðsynlegt er að rutt verði úr vegi hindrunum gegn því að eldri borgarar sem hafa vilja og getu geti bætt hag sinn með því að vinna í auknum mæli. Þar eru ljón í veginum sem eru skerðingar bóta. Menn þekkja umræður um hið svokallaða frítekjumark þar sem gert er ráð fyrir því að atvinnutekjur umfram 100.000 kr. leiði af sér skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Ég vísa sem fyrr á rannsóknir sem gerðar hafa verið í þeim efnum sem ekki hafa verið bornar brigður á og hafa að niðurstöðu að ríkissjóður geti sem best sér að kostnaðarlausu fellt niður þær hindranir. Þegar ég sagði ríkissjóður meina ég að sjálfsögðu ríkið. Ríkið getur, ríkissjóði að kostnaðarlausu, gert þetta. Það er niðurstaðan í þessari rannsókn sem gerð var af viðurkenndum sérfræðingi á því í sviði, dr. Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi, að það að fella niður frítekjumarkið með öllu myndi ekki kosta ríkissjóð krónu heldur myndu auknar tekjur skapast af þeirri auknu atvinnu sem myndi fela í sér skatta af þeim tekjum, auk veltuskatta. Það væri jafnvel svo að búast mætti við að ríkissjóður hefði hag af þeirri breytingu fremur en kostnað.

Ég leyfi mér að ljúka máli mínu með því að hvetja til þess að þetta atriði verði tekið til gagngerrar skoðunar um leið og heilbrigðisstefnan sem nú er lögð fram í fyrsta sinn. Þess má minnast að við fjölluðum fyrir ekki mjög löngu síðan um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gerði út leiðangur í leit að heilbrigðisstefnu og kom tómhent til baka. Hún fyrirfannst ekki. Hér er leitast við að bæta úr. Margt er vel gert en eins og þær umsagnir sem hefur verið vitnað til bera með sér hefði samráð þurft að vera betra og líta hefði þurft víðar yfir sviðið en sýnist gert í stefnunni.