138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í samgönguáætlun sem hér var lögð fram segir að lögð verði áhersla á að við ákvörðun um forgangsröðun verkefna verði horft til uppbyggingar á einstökum svæðum í samræmi við áherslur og svæðaskiptingu sóknaráætlunar fyrir Ísland. Ég sit í vinnuhópi á vegum sóknaráætlunar við að móta atvinnustefnu fyrir Ísland og það er laukrétt að það er búið að skipta landinu niður í svæði og Vestfirðir eru eitt af þessum svæðum.

Ég spyr vegna þess að við verðum að fá þetta upp á borðið: Stendur til að tengja saman byggðarlögin á Vestfjörðum með Dýrafjarðargöngum og almennilegum vegi um Dynjandisheiði? Ég taldi mig heyra það í ræðu ráðherrans áðan að það stæði til að setja þetta á dagskrá og byrja framkvæmdir hið fyrsta en mér finnst vera einhver vafahjúpur yfir þessu. Ég spyr ráðherrann: Verður farið í það á allra næstu árum, helst sem allra fyrst, að byggja Dýrafjarðargöng, tengja saman þessi byggðarlög, hanna veginn um Dynjandisheiði? Annars er alveg fullkomlega marklaust að standa í þeirri sóknaráætlunarvinnu sem styrkja á einstök svæði á Íslandi.